Bakgrunnur
↓
Staðreyndir
Finnst gaman að ferðast
Meistari í að skorða hluti
Finnst spontant ævintýri skemmtileg
Finnst gaman að taka ljósmyndir
Rósa ásgeirsdóttir
14.desember 1982
—
Rósa fæddist á Akureyri og ætlaði upphaflega að verða dýralæknir. Hún var kortér í að setjast þar að þegar hún áttaði sig á því að hún ætti mörg ævintýri eftir. Hún seldi íbúðina og flutti til Reykjavíkur 25 ára. Ári síðar komst hún inn í leikaranám og lenti svo óvænt inn í Leikhópnum Lottu þar sem hún átti upphaflega að koma í afleysingu, en hefur ekki skilið við hópinn síðan.
Við það að leika með Lottu byrjaði hún að fikta við búningasaum. Hún hafði verið dugleg að stelast í saumavél mömmu sinnar þegar hún var yngri með ágætum árangri.
Árið 2009 ákvað hún að hún gæti alveg saumað búninga fyrir leikrit og gerði alla búningana fyrir Rauðhettu vorið 2009 og aftur 2010 fyrir Hans Klaufa. Árið 2011 varð meira að gera svo hún gerði helminginn af búningunum á móti búningahönnuð sem var ráðin inn í hópinn það ár fyrir leikverkið um Mjallhvíti. Það ár kviknaði áhuginn að lagasmíðum og hennar fyrsta lag fór inn á geisladiskinn um Mjallhvíti með Leikhópnum Lottu árið 2011. Þá var ekki aftur snúið. Hún fór að semja fleiri lög, stofnaði hljómsveit með vinkonu sinni, fór að semja fyrir aðra, syngja inn á plötur hjá öðrum og fyrr en varði var hún komin í Tónlistarnám við Listaháskóla Íslands. Frá því að hafa samið eitt og eitt lag fyrir Leikhópinn Lottu ásamt því að leika með hópnum sumar eftir sumar var hún árið 2017 komin í stöðuna að leika ekki með hópnum það sumarið, heldur að semja helminginn af lögunum fyrir sýninguna og útsetja fyrir plötuna. Í kjölfarið bauðst henni að gera lag fyrir gott málefni sem hún þáði og óvænt búningaverkefni datt inn á borð þar sem hún hannaði og saumaði trúðabúninga fyrir samstarfsverkefni Olís og Lottu.
Haustið 2017 hélt hún skólanum áfram og fór lengra í útsetningum. Tók að sér að hanna og sauma búninga fyrir Galdrakarlinn í Oz ásamt því að æfa upp hlutverk Dórótheu sem var frumsýnt í Tjarnarbíói í janúar 2018. Hún hannaði og saumaði einnig búninga fyrir sýninguna um Rauðhettu sem sýnd var í Tjarnarbíó árið eftir. Vorið fyrir útskrift úr Listaháskólanum samdi hún svo hluta af tónlistinni fyrir leiksýninguna Bakkabræður, en hún útskrifaðist úr tónsmíðum þann 19.júní 2020.
Í dag veit Rósa ekkert hvað af þessu henni finnst skemmtilegast en skoðar alltaf öll verkefni sem henni bjóðast, hvort sem þau tengjast leiklist, söng, tónlist eða hönnun. Hún er ævintýramanneskja og líður best í skapandi störfum.
Staðreyndir
Er skíthrædd við orma
Getur ekki snert annara manna tyggjó
Gæti lifað á tortillas út lífið